10 vikur búnar

Tíminn hefur flogið og 10 vikur liðnar. Á aðeins 10 vikum hef ég get stórkostlegar breytingar á lífinu og sjálfri mér. Ég er búin að missa 10 kg, borða mun hollari mat og er full af lífsorku.

Fyrir rúmri viku var okkur í heilsuferðalaginu boðið í Bláa Lónið í betri stofuna. Speedo styrkti okkur með sundfatnaði. Hélt að ég gæti ekki litið vel út í sundbol en við fengum bol úr nýju aðhaldslínunni þeirra og hann heldur svakalega vel að. Lenti svo í því að biðja um stærra númer en ég þurfti en það hefur yfirleitt verið á hinn veginn.

Betri stofan í Bláa Lóninu var algjör draumur. Langþráð afslöppun og dekur. Þetta var svo nice að við tímdum varla að fara í lónið. Fengum prufur og maska úr Bláa Lóns línunni og húðin er búin að vera svakalega mjúk síðan. Hef alltaf verið með venjulega til feita húð og aldrei þurft að hugsa mikið um að bera krem á mig en eftir að ég fór að æfa á hverjum degi og baða mig einu sinni til tvisvar á dag fór húðin að þorna mikið. Það var því mikill munur að fá góð krem.

Nú þegar átakið er búið þarf að byrja að rækta sjálfsagann og skipuleggja hvernig ég ætla að halda áfram á eigin fótum.


Vika 7

Það er rosalega gaman að fólk er farið að taka eftir því að ég hafi grennst. Fæ hrós frá allskonar fólki og það er gaman að fá það staðfest að erfiðið hafi skilað árangri. Hrós fyrir árangur í líkamsrækt eru líka svo skemmtilega vel orðuð: „Þú ert bara að hverfa“ og „Þú ferð að detta í sundur“. Held að það sé langt í að ég hverfi eða detti í sundur en ég er búin að missa 8 kg á þeim 7 vikum sem eru búnar og styrkjast helling.

Ég er ein af þeim sem þyngjast rosalega á meðgöngu. Ég á stelpu sem er 9 mánaða og ég þyngdist um 28 kg. á meðgöngunni. Með þeim kílóum sem ég er búin að missa í heilsuátakinu eru 28 kíló farin nú þegar stelpan er búin að vera jafn lengi inni og úti. Það var mun auðveldara að bæta þessum kílóum á en að ná þeim af. Af því tilefni að ég er búin að missa þessi kíló tók ég fram öll fötin mín sem ég passaði í fyrir meðgöngu og ætlaði aldeilis að gella mig upp. Það voru blendnar tilfinningar í gangi þegar ég fór í buxurnar. Áður en ég varð ólétt var ég akkúrat ekki í neinu formi og einu lyftingarnar sem ég stundaði voru glasalyftingar. Þó að ég hafi verið nákvæmlega jafn þung voru buxurnar alltof víðar. Það er s.s. eitthvað til í því að vöðvar eru þyngri en fita :)

Síðastliðinn mánudag byrjaði ég að vinna aftur eftir barnsburð og það gengur mun betur að koma rútínu á matarræði eftir að ég fór að vinna. Það er örlítið erfiðara að komast á æfingar en þetta er púsluspil sem gengur yfirleitt upp. Ég er venjulega ekki manneskja sem gleymir að borða og tel yfirleitt niður mínúturnar í næstu máltíð en mér hefur tekist það í vinnunni og ég þarf að passa betur uppá það.

Ég er mjög sátt við útkomuna eftir þessar 7 vikur og vona að framtíðin gangi jafn vel. Skrefin sem ég tek í breyttum lífstíl eru hæfilega stór og til þess fallin að ég geti gert þetta að framtíðar lífstíl. Á meðan ég hreyfi mig þá langar mig ekki í neitt óhollt.


Að verða hálfnaðar

Síðastliðnar tvær vikur hafa einkennst af veikindum. Fyrst eldri stelpan mín, svo yngri, svo ég, svo maðurinn minn, svo yngri aftur og núna að lokum eldri stelpan. Ég á bestu tengdaforeldrana sem mæta til mín í hádeginu og passa stelpurnar fyrir mig svo ég komist aðeins frá til að komast á æfingu. Það er algjörlega nauðsyn að komast aðeins út og sérstaklega þegar maður er heima með tvö veik börn. Öll þessi veikindi hafa tekið sinn toll á mér og hiti, svefnlausar nætur og pensilín inntaka hafa dregið verulega úr getu minni á æfingum.

Í morgun vorum við stelpurnar, ég og dætur mínar tvær, uppí rúmi nývaknaðar og myglaðar. Eldri var heima þar sem hún var með 39 stiga hita í gær. Miðað við ástandið á liðinu hélt ég að það yrðu bara kózyheit hjá okkur og kúr. En nei. Eldri stelpan tók loftfimleikasýningu með tilheyrandi hoppnum, bjarnagöngu, planka, heljarstökkum, armbeygjum og einhverjum teygjum sem ég hef aldrei séð áður. Var barnið ekki heima vegna veikinda?

Hvar á lífsleiðinni ætli maður tapi þessari orku sem þriggja ára börn hafa? Ég ákvað að verða þriggja ára í smá stund. Ég fór í einkaþjálfun hjá þessari þriggja ára. Barnið hefur sjaldan skemmt sér jafn vel og ég held ég hafi bara aldrei verið jafn uppgefin eftir 15 mínútur. Maður þarf að hlaupa ótrúlega hratt þegar það eru krókódílar á hælunum á manni... Skora á líkamsræktarstöðvar að taka upp þetta æfingaform.

Ótrúlegur árangur sem maður getur náð á tæpum 5 vikum. Er búin að missa 6 kg og slatta af cm. Hef ekki borðað neitt nammi og reynt að sneiða hjá öllum sykri en annars borða ég bara venjulegan heimilismat í hollari kantinum. Ég reyni líka að elda alveg frá grunni. Þetta þarf nefnilega að vera eitthvað sem ég get gert að lífstíl en ekki bara eitthvað sem ég þarf að halda út á meðan áskorunin er í gangi. Hef alveg lent í því að komast í kjólinn fyrir jólin en kjóllinn verið einnota vegna þess að hann minnkaði furðulega mikið yfir hátíðarnar.


Vika 2

Hreyfing er í 20 mínútna fjarlægð frá heimili mínu og hefði því ekki verið mitt fyrsta val ef ég hefði valið sjálf stað. Eftir fyrstu tvær vikurnar er Hreyfing komin í efsta sæti hjá mér. Starfsfólkið er frábært, þjálfararnir snillingar og stöðin hreinleg og heimilisleg. Ég er með lágt sjálfsmat, rosalega meðvituð um sjálfa mig og ekki mikið fyrir athygli. Ég hef akkúrat enga samhæfingu og er gjörsamlega taktlaus og fannst mér fráleitt að mæta í Zumba tíma eða Dans Fitness. Hins vegar ákvað ég að ögra sjálfri mér og nú eru þetta uppáhalds tímarnir mínir. Ég er hætt að pæla í því hvort einhver sé að horfa á mig, hvað öðrum finnst eða hvort ég sé að gera mig að fíbbli og mæti í ræktina til að skemmta mér.

Þessar tvær vikur sem lífstílsbreytingin hefur staðið yfir hef ég ekki drukkið neitt gos nema kristal, ekki borðað neitt nammi og forðast viðbættan sykur. Fyrsta vikan var mjög erfið og ég var sífellt hugsandi um sykur. Önnur vikan var örlítið betri, nartþörfin að minnka og nammilöngunin að hverfa. Nú þegar páskarnir nálgast fylgja ótrúlega margar freistingar og auðvelt að falla af sporinu. Fermingarveislur, páskaegg og ofát sem fylgir hátíðardögum er eitthvað sem ég þarf að læra að hemja mig í. Um páskana ætla ég að hugsa að einn biti af páskaeggi gerir mig ekki feita frekar en að ein salatskál geri mig mjóa.


Engar afsakanir


excuse

 

Í lok fyrstu vikunnar er mér efst í huga af hverju ég byrjaði ekki fyrr. Allir þessir dagar sem ég ætlaði að byrja á morgun eða byrja eftir helgi eða byrja í næsta mánuði liðu án þess að nokkuð gerðist. Ég ætlaði líka að hætta hinu og þessu í sambandi við matarræði á morgun, eftir helgi eða í næsta mánuði en ekkert varð úr því. Ég fann alltaf afsökun fyrir því að fresta öllu. Verandi móðir tveggja ungra barna, sjö mánaða og að verða þriggja ára, er erfitt að finna tíma til að hlaupa frá í ræktina og brasa við að elda hollt. Það er miklu auðveldara að skella pylsum í pott eða borgara á pönnuna og frönskum í ofninn en að elda frá grunni.

Í upphafi vikunnar tók ég ákvörðun útfrá þessu um að það eru engar afsakanir lengur. Það er ekkert mál að skera niður grænmeti og henda kjúklingabringum í ofninn. Jafnframt ákvað ég að kalla þetta ekki megrun eins og ég hef alltaf gert heldur lífstílsbreytingu. Ef stelpurnar mínar eiga erfiðan dag eða nótt og ég er þreytt eða dagurinn er þétt skipaður af útréttingum þá mæti ég samt á æfingu en hef hana bara örlítið styttri en venjulega æfingu.

Útfrá þessum viðhorfsbreytingum náði ég að mæta í ræktina þessa fjóra daga sem lífstílsbreytingin hefur staðið yfir. Ég þurfti að mæta einn daginn á mjög stutta æfingu vegna þess að stelpan mín var veik en ég bætti það upp með því að fara á tvær æfingar í dag. Ef ég sé fram á að hafa lítinn tíma í kringum kvöldmatinn þá undirbý ég matinn fyrr um daginn. Í kvöld t.d. var ég á æfingu til klukkan 18:15 sem þýðir að ég var ekki komin heim fyrr en rétt fyrir 19 og börnin fara í rúmið um klukkan 20:30. Ég steikti kjúkling áður en ég fór í ræktina og hitaði hann svo upp fyrir okkur þegar ég kom heim. Þetta fyrirkomulag krefst skipulags en verður allt fyrirhafnarinnar virði á endanum. Þetta er ekki dagsferð heldur langferð!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband